Svo virðist sem að Stofnun múslima á Ís­landi hafi ó­að­vitandi sett merki Ís­lensku þjóð­fylkingarinnar á bæna­turn sinn í Skógarhlíð.

Eitt af helstu bar­áttu­málum Ís­lensku þjóð­fylkingarinnar í borgar­stjórnar­kosningunum árið 2018 var að aftur­kalla leyfi stofnunarinnar fyrir „kall­t­urni“ í Hlíðunum. Bænaturninn eða öllu heldur mínarettan er táknrænt merki fyrir moskur rétt eins og kross á kirkjum.

Ka­rim Askari, stjórnar­for­maður Stofnun múslima á Ís­landi, vissi ekki til þess að myndin væri þekkt merki Ís­lensku þjóð­fylkingarinnar. Hann segir að myndin hafi verið valinu þar sem um fal­lega mynd af Ís­landi og ís­lenska fánanum væri að ræða.

„Við vissum þetta ekki, við leituðum bara að ís­lenska fánanum, fundum þennan og á­kváðum að nota hann,“ segir Ka­rim í sam­tali við Frétta­blaðið.

Ka­rim kom að fjöllum þegar undir­ritaður til­kynnti honum að stjórn­mála­hreyfing sem er ekki hrifin af múslimum á Ís­landi væri þekkt fyrir nota að þessa mynd.

„Þú ert að segja mér fréttir,“ sagði Ka­rim.

SJÁ EINNIGFyrsti bæna­turn Ís­lands merki til heimsins um um­burðar­lyndi landsins

Vilja banna búrkur, moskur og kóranskóla á Íslandi

Á heima­síðu Ís­lensku þjóð­fylkingarinnar kemur meðal annars fram að flokkurinn vilji banna búrkur, starf­semi mosku og kóran­skóla á Ís­landi.

Í fram­boð­stil­kynningu Ís­lensku þjóð­fylkingarinnar til borgar­stjórnar Reykja­víkur árið 2018 segir að „helstu á­herslu­mál flokksins fyrir borgar­stjórnar­kosningarnar eru að draga til baka lóð undir mosku og allar leyfis­veitingar vegna við­byggingar á bæna­húsi múslíma í Öskju­hlíð en þar hefur m.a. verið veitt leyfi fyrir kall­t­urni.“

Bæna­turninn sem Ís­lenska þjóð­fylkingin vildi aftur­kalla leyfi á ber nú merki þeirra í hlíðunum. Þá er rétt að taka fram að engin hljóð né raddir heyrast frá þessum turni og því ekki um kall­t­urn að ræða. Á honum er hins vegar daga­tal, klukka og mynd af Ís­landi.

Í við­tali við Frétta­blaðið í desember sl. sagði Ka­rim að turninn væri virðingar­vottur fyrir ís­lenskt sam­fé­lag, um­burðar­lyndi og trú­frelsi.

„Þetta eru skila­­boð til heimsins um að hér geta allir lifað í sátt og sam­­lyndi óháð trú þeirra eða upp­­runa og þessi mínaretta á að vera til vitnis um það. Þetta er ekki einungis fyrir múslíma, heldur til alls heimsins um þessa fal­­legu eyju,“ sagði Ka­rim.