Svo virðist sem að Stofnun múslima á Íslandi hafi óaðvitandi sett merki Íslensku þjóðfylkingarinnar á bænaturn sinn í Skógarhlíð.
Eitt af helstu baráttumálum Íslensku þjóðfylkingarinnar í borgarstjórnarkosningunum árið 2018 var að afturkalla leyfi stofnunarinnar fyrir „kallturni“ í Hlíðunum. Bænaturninn eða öllu heldur mínarettan er táknrænt merki fyrir moskur rétt eins og kross á kirkjum.
Karim Askari, stjórnarformaður Stofnun múslima á Íslandi, vissi ekki til þess að myndin væri þekkt merki Íslensku þjóðfylkingarinnar. Hann segir að myndin hafi verið valinu þar sem um fallega mynd af Íslandi og íslenska fánanum væri að ræða.
„Við vissum þetta ekki, við leituðum bara að íslenska fánanum, fundum þennan og ákváðum að nota hann,“ segir Karim í samtali við Fréttablaðið.
Karim kom að fjöllum þegar undirritaður tilkynnti honum að stjórnmálahreyfing sem er ekki hrifin af múslimum á Íslandi væri þekkt fyrir nota að þessa mynd.
„Þú ert að segja mér fréttir,“ sagði Karim.
SJÁ EINNIGFyrsti bænaturn Íslands merki til heimsins um umburðarlyndi landsins
Vilja banna búrkur, moskur og kóranskóla á Íslandi
Á heimasíðu Íslensku þjóðfylkingarinnar kemur meðal annars fram að flokkurinn vilji banna búrkur, starfsemi mosku og kóranskóla á Íslandi.
Í framboðstilkynningu Íslensku þjóðfylkingarinnar til borgarstjórnar Reykjavíkur árið 2018 segir að „helstu áherslumál flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar eru að draga til baka lóð undir mosku og allar leyfisveitingar vegna viðbyggingar á bænahúsi múslíma í Öskjuhlíð en þar hefur m.a. verið veitt leyfi fyrir kallturni.“
Bænaturninn sem Íslenska þjóðfylkingin vildi afturkalla leyfi á ber nú merki þeirra í hlíðunum. Þá er rétt að taka fram að engin hljóð né raddir heyrast frá þessum turni og því ekki um kallturn að ræða. Á honum er hins vegar dagatal, klukka og mynd af Íslandi.
Í viðtali við Fréttablaðið í desember sl. sagði Karim að turninn væri virðingarvottur fyrir íslenskt samfélag, umburðarlyndi og trúfrelsi.
„Þetta eru skilaboð til heimsins um að hér geta allir lifað í sátt og samlyndi óháð trú þeirra eða uppruna og þessi mínaretta á að vera til vitnis um það. Þetta er ekki einungis fyrir múslíma, heldur til alls heimsins um þessa fallegu eyju,“ sagði Karim.