Karim Askari, stjórnarformaður Stofnunar múslíma á Íslandi, segir að bænaturninn sem nú sé verið að reisa við mosku félagsins í Hlíðunum í Reykjavík sé sá fyrsti á Íslandi. Hann segir turninn merki til heimsbyggðarinnar um umburðarlyndi landsins.
„Hann er enn í vinnslu en við búumst við því að hann verði tilbúinn í lok mánaðarins,“ segir Karim í samtali við Fréttablaðið. „Það verða falleg ljós á honum og svo klukka auk hitamælis.“ Ekki verði búið þannig um hnútana að bænaköll muni berast frá turninum.
„Það munu engin hljóð né raddir heyrast frá þessum turni heldur verða bara á honum falleg ljós sem eiga að lýsa upp skammdegið,“ segir Karim léttur í bragði. „Þetta verður fyrsta mínarettan í sögu Íslands og er virðingarvottur við íslenskt samfélag, íslensk yfirvöld og það umburðarlyndi sem er hér og trúfrelsið.“
„Þetta eru skilaboð til heimsins um að hér geta allir lifað í sátt og samlyndi óháð trú þeirra eða uppruna og þessi mínaretta á að vera til vitnis um það. Þetta er ekki einungis fyrir múslíma, heldur til alls heimsins um þessa fallegu eyju.“