Fé­lags­mönnum í Stofnun múslima hefur fjölgað um 36% á árinu, sem er töl­fræði­lega mesta aukning allra trú­fé­laga á Ís­landi. Vitund er minnsta trú­fé­lag landsins með tvo fé­lags­menn, en einn skráði sig úr félaginu í ár.

Af öllum skráðum trú­fé­lögum á Ís­landi bætir Stofnun múslima á Ís­landi töl­fræði­lega við sig flestum fé­lags­mönnum, á tíma­bilinu 1. des 2019 til 1. júlí 2020.

Sam­tökin sáu 35,9% aukningu í fé­lags­mönnum á tíma­bilinu en 90 manns hafa skráð í sam­tökin á þessu ári. Á árinu 2019, skráðu 60 manns sig í Stofnun múslima á Ís­landi.

Stofnun múslima ber höfuð og herðar yfir önnur sam­tök múslima á Íslandi þegar kemur að nýjum félagsmönnum. Á síðustu mánuðum fækkaði fé­lags­mönnum í Fé­lagi múslima á Ís­landi um fimm, eftir að hafa bætt við sig 86 fé­lags­mönnum árið áður.

Menningar­setur múslima á Ís­landi bætti einungis við einum fé­lags­manni á þessu ári, eftir að hafa fækkað um 22 á árinu áður. Fé­lag múslima á Ís­landi er þó enn­þá stærstu sam­tök múslima hér á landi með yfir 600 fé­lags­menn.

Gefa fólki tækifæri til að iðka sína trúa

Ka­rim Askari, fram­kvæmda­stjóri Stofnunar múslima á Ís­landi, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að þessa aukningu megi rekja til þjónustunnar sem sam­tökin bjóða upp á.

„Við reynum að bjóða fólki upp á allt sem það þarf og gefa þeim tæki­færi til að iðka sína trú,“ segir Ka­rim

Spurður um hversu stórt hlut­fall þeirra sem hafa skráð sig í sam­tökin á síðustu árum hafa verið Íslendingar að snúast til íslamstrúar, segir hann þeir ekki margir en þó ein­hverjir.

„Þeir eru fáir, svo eru sumir Ís­lendingar sem hafa verið í öðrum sam­tökum og eru að færa sig yfir til okkar,“ segir Ka­rim

Hann segist sjá aukningu í fjölda fólks sem sækir trúar­legar sam­komur sam­takanna. Yfir 150 manns sækja nú viku­lega föstu­dags­at­höfn hjá Stofnun múslima.

Alla laugar­daga er síðan fjöl­skyldu­dagur hjá sam­tökunum, fyrir konur og börn. „Við bjóðum uppá kennslu í arabísku fyrir börnin og ís­lensku­kennslu fyrir konurnar og svo borða allir saman,“ segir Ka­rim.

Allar fjöl­skyldurnar koma með mat frá sínum heima­löndum og deila sín á milli. „Sumir koma með mat frá Afríku, sumir frá Asíu. Allir gera mis­munandi rétti og koma með í moskuna og svo borðum við saman alla laugar­daga,“ segir Ka­rim.

Íslenska þjóðkirkjan enn langstærst

Ís­lenska þjóð­kirkjan er á­fram lang­stærsta trú­fé­lag landsins með 230.626 fé­lags­menn. Fé­lags­mönnum Þjóð­kirkjunnar heldur þó á­fram að fækka en á tíma­bilinu 1. des 2019 til 1. júlí 2020, fækkaði fé­lags­mönnum um 528. Á árinu 2019 fækkaði félagsmönnum Þjóðkirkjunnar um 1.518.

Ef talið er í fjölda fólks bætir Sið­mennt við sig flestum fé­lags­mönnum en 276 manns skráðu sig í Sið­mennt á síðustu mánuðum. Það er um 8% aukning. Á árinu 2019 skráðu 655 manns sig í Sið­mennt.

Ása­trúar­fé­lagið er einnig í mikilli sókn en 216 manns skráðu sig í Ása­trúar­fé­lagið á fyrstu mánuðum ársins, sem er um 4,6% aukning í félagsmönnum.

Zu­ism tapaði flestum fé­lags­mönnum en á fyrstu mánuðum ársins hafa 167 manns skráðu sig úr fé­laginu. Á árinu 2019 fóru 375 manns úr trú­fé­laginu.

Minnsta trú­fé­lag landsins er Vitund sem hefur einungis tvo fé­lags­menn. Töl­fræði­lega séð fækkaði fé­lags­mönnum Vitundar einnig mest er einn skráði sig úr fé­laginu í ár.